Fréttir & tilkynningar

20. október 2020

COVID-19: Sóttvarnaaðgerðir vegna Ökukennslu


Samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar gilda enn sömu reglur um ökukennslu.


Til og með 3. nóvember 2020 er ökukennsla óheimil á höfuðborgarsvæðinu.


Þau sveitafélög sem falla undir höfuðborgarsvæðið er Reykjavíkurborg, Seltjarnarnesbær, Mosfellsbær, Kjósahreppur, Hafnarfjarðarkaupstaður, Garðabær og Kópavogsbær.


Fyrir utan höfuðborgarsvæðið er ökukennsla heimil, en skylda er að nota andlitsgrímur þar sem ekki hægt er að tryggja 2 metra fjarlægð.


ATH! Öll ökukennsla á höfuðborgarsvæðinu er óheimil, þannig ekki er leyfilegt fyrir ökukennara sem starfa utan þess svæðis að koma með ökunema á höfuðborgarsvæðið og taka tíma þar.


 


Reglugerðir um sóttvarnaráðstafanir sem taka gildi 20. október


 

7. október 2020

COVID-19: Hertar sóttvarnaaðgerðir á höfuðborgarsvæðinu


Vegna banns Heilbrigðisráðherra er verkleg ökukennsla á höfuðborgarsvæðinu óheimil þar sem nálægð er minna en 2 metrar.


Bannið tekur gildi 7. október og stendur til og með 19. október.


Ökuskóli 3 hefur lokað á námskeið frá og með 7. október þar til aðstæður breytast.


Ökupróf
Verkleg próf falla niður frá og með 7.október, en unnt verður að halda bóklegum prófum áfram með takmörkunum.


Þó svo að bannið gildi einungis á höfuðborgarsvæðinu þá viljum við biðja ökukennara utan höfuðborgarsvæðisins að gæta sérstaklega vel að sér, hún er lúmsk þessi veira.


Tilkynning frá Heilbrigðisráðherra má finna hér.


 


 

18. júní 2020

BE réttindi


Aukinn áhugi er meðal ökumanna að ná sér í kerruréttindi þessa dagana (BE réttindi).


Þeir sem tóku bílprófið, B réttindi, fyrir 15. ágúst 1997 fengu sjálfkrafa B og BE réttindi.




kerra1


B réttindi:
Réttindi til að aka bifreið sem er skráð að hámarki 3500 kg að heildarþyngd og draga eftirvagn að auki sem er skráður að hámarki 750 kg að heildarþyngd.




kerra2


B réttindi:
Gefa að auki réttindi til að aka bifreið og eftirvagn sem eru samtals 3500 kg að skráðri heildarþyngd.




kerra3


BE réttindi: 
Gefa réttindi til að aka bifreið sem er skráð að hámarki 3500 kg að heildarþyngd og draga eftirvagn að auki sem er skráður að hámarki 3500 kg að heildarþyngd.


Leyfð heildarþyngt bifreiðar og eftirvagns er því alls 7000 kg.


ATH óheimilt er að draga þyngri eftirvagn en bifreiðin má draga. Í skráningarskírteini bílsins kemur fram hversu þungan eftirvagn bifreiðin má draga.


 

18. júní 2020

Viðhorfsmótun ungra ökumanna


Þann 12. október 2019 hélt Landsbjörg ráðstefnuna Slysavarnir, þar sem ökukennarinn Þórður Bogason hélt fyrirlestur um viðhorfsmótun ungra ökumanna. 


Fyrirlesturinn var 43 mínútur að lengd og hægt er að sjá hann hér.

23. mars 2020

Bann við ökukennslu

Vegna banns heilbrigðisráðherra er ökukennurum óheimilt að sinna verklegri ökukennslu þar sem nálægð er minna en 2 metrar milli kennara og nemanda.

Bannið tekur gildi frá og með miðnætti aðfaranótt þriðjudagsins 24. mars.

Ökuskóli 3 hefur lokað á námskeið frá og með mánudeginum 23. mars þar til aðstæður breytast.

Ökupróf

Verkleg próf falla niður frá og með þriðjudeginum 24. mars en unnt verður að halda bóklegum prófum áfram þar til annað kemur í ljós.

16. mars 2020

Vegna COVID-19


Þar sem allir eru að spá í hvað við ökukennarar eigum að gera á þessum COVID-19 tímum þá viljum við benda á:


Varðandi kennslu útí bíl þá eru hlutirnir ekki nægjanlega á hreinu. Við mælum með að ökukennarar kynni sér fyrirmæli stjórnvalda um samkomubann


Hvað getum við gert?



  • Almennt hreinlæti, handþvottur, þrif á bíl á milli nemenda og fatnaði, sprittun.

  • Ath. að hreinsa þarf alla snertifleti s.s. stýri, gírstöng, stefnuljósarofa, handföng, spegil, sætisstillingar o.fl o.fl.

  • Að biðja nema að þvo sér um hendurnar fyrir og eftir ökutímann.

  • Að vera í hönskum eykur vörn, einnig að bjóða nemum einnota hanska og að spritta sig.

  • Við getum beðið ökunema um að koma ekki í tíma ef grunur leikur á smithættu, einkenni kvefs eða flensu. Einnig ef þeir hafa verið í samneyti við fólk sem hefur verið í sóttkví, einangrun eða greinst sýkt af COVID-19.

  • Við getum reynt að draga úr kennslu, skera niður nemendafjölda á degi hverjum og reynt þannig að dreifa álaginu og minnka smithættu.

  • Við viljum benda ökukennurum á að það minnkar hættu á smiti að vera ekki með fleiri aðila í bílnum en ökunemann, ekki taka með vini og ekki láta nemendur sækja og skutla hvor öðrum.

  • Gefa okkur tíma til að hreinsa bílana á milli nemenda.


Athuga þarf að sum efni s.s. spritt geta skemmt innréttingu s.s. leður.
Viðbragðsaðilar nota Oxivir til sótthreinsunar leðurinnréttinga í bílum.


Það er öllum í sjálfsvald sett hvort þeir halda áfram kennslu eða taka hlé. Við viljum benda þeim ökukennurum sem eru komnir á efri ár og/eða eru haldnir undirliggjandi sjúkdómum að huga sérstaklega vel að sér.


 


7. febrúar 2020

Ný umferðarlög


Í nýjum umferðalögum 2019/77 er tóku gildi 1. janúar sl. er skýrt tekið fram að óheimilt sé að hefja kennsluakstur fyrr en nemandi er búin að sækja um ökuskírteini og fá námsheimild. 


Fyrir bílprófið (B-flokk) má gefa út námsheimild 12 mánuðum fyrir 17 ára afmælið. Það er því hægt að sækja um ökuskírteini á 16 ára afmælisdaginn.


Umferðalög 2019/77


67. gr. Kennsluakstur.



  • Kennsluakstur á bifreið má því aðeins fara fram að hjá nemanda sitji ökukennari sem uppfyllir ákvæði 64. gr. sem þá telst stjórnandi bifreiðarinnar. Nemandi telst þó stjórnandi við prófakstur. Nú óskar maður sem hefur ökuskírteini eftir að æfa sig í akstri á ný í viðurkenndri kennslubifreið hjá ökukennara, og telst þá ökukennari stjórnandi bifreiðarinnar. Ákvæði 48.–50. og 52. gr. eiga þó ávallt einnig við um nemandann.

  • Ökukennari ber ábyrgð á að kennsluakstur fari fram á þeim stöðum og þannig að ekki stafi hætta af. Hann skal og gæta þess að eigi stafi óþörf eða veruleg truflun af kennsluakstrinum.

  • Ráðherra setur í reglugerð ákvæði um kennsluakstur á sérstökum lokuðum svæðum, m.a. ökugerðum. Má þar ákveða að kennsluakstur fari fram án þess að ökukennari sitji hjá nemanda.

  • Kennsluakstur má ekki fara fram fyrr en að fenginni námsheimild lögreglustjóra. Skal nemandi þá fullnægja skilyrðum b-liðar 2. mgr. 58. gr. og má ekki vera svo ástatt um hann að 7. mgr. 58. gr. eigi við. Sá sem sviptur hefur verið ökurétti má eigi hefja akstursþjálfun fyrr en einum mánuði áður en sviptingartímabil rennur út. Slík akstursþjálfun má því aðeins fara fram að hjá nemanda sitji ökukennari, sbr. 1. mgr.

  • Gefa má út námsheimild áður en aldursskilyrðum skv. 58. gr. er fullnægt fyrir:
    a. B-flokk 12 mánuðum fyrr,
    b. AM-, A1-, A2-, A-, BE- og T-flokk þremur mánuðum fyrr,
    c. C-, C1-, D- og D1-flokk sex mánuðum fyrr, enda hafi umsækjandi fullnaðarskírteini fyrir B-flokk.

18. desember 2019

Útskrift ökukennara


Þann 6. desember síðastliðinn voru 27 nýir ökukennarar útskrifaðir frá Endurmenntun Háskóla Íslands. Þetta er annar hópurinn sem útskrifast úr ökukennaranámi til almennra ökuréttinda frá Endurmenntun HÍ. Námið er þriggja missera nám til 30 ECTS eininga.


utskrift2


Ökukennarafélag Íslands óskar nýjum ökukennurum til hamingju með áfangann og óskar þeim velfarnaðar í starfi.


 

25. október 2019

Skemmti- og kynnisferð Ö.Í.


Skemmtiferð Ökukennarafélags Íslands var farin nú í lok september og tóku 25 ökukennarar og þeirra makar þátt. Flogið var til München fimmtudaginn 19. september en ekið var í gegnum fjögur lönd í ferðinni. Byrjað var á að aka til Austurríkis og gist í litlum bæ við Bodensee sem heitir Bregenz.
Daginn eftir var ekið í gegnum Sviss og Alpana til Mílanó og þar var byrjað á að skoða Alfa Romeo safnið.


alfa


Á laugardeginum var ökuskóli í Mílanó heimsóttur og var mjög áhugavert að kynnast því hvernig ökunám fer fram á Ítalíu. Eftir það var frjáls dagur í Mílanó. Á sunnudeginum var ekið til Þýskalands og Arnarhreiður Hitlers skoðað. Var það mikil upplifun fyrir ferðalanga og allir á einu máli um það hve stórfenglegur þessi staður er.
Á mánudeginum var ekið til München, margir nýttu tækifærið og fóru á Októberfest eða skoðuðu sig um í borginni. Komið var heim á þriðjudegi. 


arnarhreidur

17. september 2019

Lokað föstudaginn 20.september


i logo new


Skrifstofa Ökukennarafélagsins verður lokuð föstudaginn 20.september vegna haustferðar Ö.Í.