Lög félagsins

Lög Ökukennarafélags Íslands

(með breytingum á ársþingi 2019)

Nafn og heimili:

1. gr. Félagið heitir Ökukennarafélag Íslands. Félagið mynda þeir sem hlotið hafa löggildingu til ökukennslu. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

Tilgangur:

2. gr. Tilgangur félagsins er:
a) Að vinna að bættri umferðarmenningu.
b) Að upplýsa félagsmenn um nýjungar í kennslu og kennslufræði og vera þeim innan handar um útvegun kennsluefnis. Jafnframt skal félagið koma fram sem fulltrúi félagsmanna gagnvart hinu opinbera og almenningi um allt það er varðar hagsmuni félagsmanna, ökunema og ökukennslu.
c) Að taka þátt í starfi samtaka bæði innlendra og erlendra, sem vinna að hagsmunum ökukennslu og bættri umferðarmenningu. Ökukennarafélag Íslands tilnefnir aðila í stjórnir þessara samtaka eftir því sem við á, en þær starfa sjálfstætt og bera ábyrgð, hver á sínu starfssviði.

Starfssvið félagsins:

3. gr. Rétt til að gerast félagi hafa allir þeir, sem hafa réttindi til ökukennslu samkvæmt lögum.

Félagið getur átt að hluta eða öllu leyti, ökuskóla eða félög um rekstur sem tengist ökukennslu, útgáfustarfsemi eða bættri umferðarmenningu.

4. gr. Inntökubeiðnir skulu vera skriflegar og skal bera þær upp á félagsfundi til úrskurðar.

5. gr. Þeir einir njóta félagsréttinda, kosningaréttar og kjörgengis, sem eru skuldlausir við félagið. Þó skulu þeir félagsmenn, sem samþykktir eru í félagið milli áramóta og ársþings, njóta fullra réttinda hafi þeir greitt árgjald miðað við 1. jan. sama ár.

Skrifstofa félagsins skal halda félagaskrá. Skuldi félagsmaður meira en eitt ár færist viðkomandi á aukafélagaskrá. Skuldi félagsmaður meira en tvö ár skal félagsgjaldið sent til innheimtu. Félagar sem náð hafa 67 ára aldri og þeir sem sitja í sjórn og varastjórn Ö.Í. og F.Ö.Í. njóti allra réttinda í Ökukennarafélagi Íslands, án greiðslu félagsgjalda. Úrögn úr félaginu skal vera skrifleg.

Skyldur:

6. gr. Allir félagsmenn eru skyldir til að hlýða lögum félagsins og fundarsamþykktum.

7. gr. Berist félaginu skrifleg kvörtun um að félagsmaður vinni félaginu ógagn eða vinni gegn tilgangi þess skal stjórn félagsins vísa slíku máli til meðferðar hjá siðanefnd. Siðanefnd sendir viðkomandi félagsmanni álitsgerð sína ásamt afriti til stjórnar. Stjórn er heimilt að víta viðkomandi félagsmann á grundvelli álitsgerðar siðanefndar en komi til brottvikningar skal slík ákvörðun staðfest á almennum félagsfundi.

Dagleg störf og stjórnun:

8. gr. Stjórn félagsins skipa 7 menn: Formaður, ritari, gjaldkeri, varaformaður og meðstjórnendur. Stjórnarmenn, aðrir en formaður, skulu kosnir til tveggja ára í senn, en formaður til eins árs. Árlega skulu 4 menn ganga úr stjórn, formaður og 3 stjórnarmenn. Þegar stjórnarmenn aðrir en formaður hafa setið í stjórn fjögur kjörtímabil samfellt mega þeir ekki vera í framboði til endurkjörs minnst eitt kjörtímabil. Stjórnin skal kosin á ársþingi félagsins ár hvert. Formaður skal þó kjörinn sérstaklega. Varastjórn skipa þrír menn kosnir í einu lagi til eins árs í senn og taka sæti í stjórn félagsins í forföllum stjórnarmanna, þannig að fyrst tekur sá varastjórnarmaður sæti, sem flest atkvæði hefur fengið. Ef jöfn atkvæði falla, skal hlutkesti ráða. Þá skal kjósa tvo endurskoðendur og einn til vara. Stjórnin skiptir með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir ársþing. Stjórnarmenn má endurkjósa.

9. gr. Stjórn félagsins er heimilt ráða félaginu framkvæmdastjóra, einnig er stjórn félagsins heimilt að skipa úr sínum röðum þriggja manna framkvæmdastjórn sem fer með stjórn félagsins á milli stjórnarfunda.

10. gr. Formaður, aðrir stjórnarmenn og framkvæmdastjóri, í umboði stjórnar, hafa einir heimild til að koma fram fyrir hönd félagsins. Stjórn er þó heimilt að fela öðrum að koma fram fyrir hönd félagsins í einstaka málum, enda sé það bókað í fundargerð stjórnar.

11. gr. Formaður leiðir starf félagsins milli ársþinga og hann kveður til stjórnarfunda með dagskrá og stjórnar þeim. Stjórn ákveður félagsfundi. Félagsfundur ákveður fundarstjóra og fundarritara.

Fundargerðir skulu birtar á svæði félagsmanna á heimasíðu félagsins en fundargerðir stjórnarfunda að lokinni samþykkt stjórnar. Efni á svæði félagsmanna er óheimilt að birta annars staðar án heimildar stjórnar.

12. gr. Ritari annast allar bréfaskriftir félagsins í samráði við formann. Hann ritar allar fundargerðir stjórnarfunda.

13. gr. Gjaldkeri hefur yfirumsjón með fjárreiðum og eignum félagsins. Skrifstofan annast inn­heimtu félagsgjalda og daglega fjárumsýslu fé­lagsins. Skrifstofan skal fyrir árs­þing ár hvert gera eða láta gera reiknis­yfir­lit um hag fé­lagsins. Gjaldkeri og framkvæmdastjóri kynna reikningana fyrir stjórn félagsins. Samþykki stjórnin reikningana skulu þeir lagðir endurskoðaðir fyrir ársþing til úrskurðar.

Ársuppgjör og reikningar félagsins og F.Ö.Í. skulu liggja frammi endurskoðaðir og fjölritaðir viku fyrir ársþing, og skulu þeir ávallt annað tveggja, samdir eða endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda. Þá skal einnig kynnt eftir því sem við á rekstrarafkoma þeirra félaga sem Ö.Í. á aðild að.

Aðalfundur er einn bær um að taka meiriháttar ákvarðanir um sölu eigna félagsins eða veðsetningu þeirra. Ef slík tillaga kemur fram og þolir ekki bið til næsta aðalfundar er stjórn félagsins heimilt að samþykkja söluna eða veðsetninguna en skal þá boða til tveggja félagsfunda með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara til samþykktar. Ákvörðunin öðlast ekki gildi nema hún verði samþykkt á báðum fundum með meirihluta atkvæða.

14. gr. Varaformaður gegnir öllum sömu störfum og formaður í forföllum hans.

15. gr. Félagsfundi skal boða svo oft, sem þurfa þykir. Félagsmenn skal boða á félagsfundi með viðurkenndum hætti, s.s. bréflega eða rafrænt. Stjórn er skylt að boða til félagsfundar ef 15 fullgildir félagsmenn krefjast þess bréflega og tilgreina fundarefni. Stjórn félagsins skal þá boða til fundar innan 7 daga frá móttöku beiðninnar.

Ársþing:

16. gr. Ársþing félagsins fer með æðsta vald í málefnum þess. Ársþing skal halda fyrir 1. maí ár hvert. Fundargerð síðasta ársþings og endurskoðaðir reikningar félagsins og FÖÍ skulu liggja frammi í upphafi ársþings.

Dagskrá ársþings:

 1. Kosning þingforseta, þingritara og varamanna þeirra.
 2. Þingforseti kannar lögmæti þingsins og boðunar.
 3. Skýrsla stjórnar.
 4. Reikningar félagsins bornir upp til samþykktar.
 5. Rekstraráætlun næsta árs kynnt.
 6. Þá skal einnig kynnt eftir því sem við á rekstrarafkoma þeirra félaga sem Ö.Í. á aðild að.
 7. Kosning formanns, 3ja stjórnarmanna, varastjórnar, 2ja endurskoðenda og 1 til vara í samræmi við 8. grein.
  Lesin er upp tillaga kjörnefndar. Þetta gildir einnig fyrir liði 8 og 9.
 8. Kosning fulltrúa í kjörnefnd í samræmi við 28. grein.
 9. Kosning fulltrúa í siðanefnd í samræmi við 30. grein.
 10. Lagabreytingar
 11. Ákvörðun félagsgjalda.
 12. Inntaka nýrra félaga.
 13. Önnur mál.

Kosningar skulu vera leynilegar, ef einn eða fleiri félagsmenn óska þess.

Ársþing skal boða bréflega og/eða með rafrænum hætti með tveggja vikna fyrirvara.

17. gr. Stjórn félagsins tilnefnir eða kýs fulltrúa félagsins í stjórnir og fulltrúaráð hinna ýmsu félaga innan ÖÍ. Einnig skal stjórn ÖÍ skipa fulltrúa í stjórnir, nefndir og störf sem ÖÍ á aðild að.
Stjórn félagsins leggur árlega fyrir ársþing til samþykktar tillögu að starfsreglum stjórnar fyrir komandi starfsár.

18. gr. Gjalddagi árgjalds er einn, 15. janúar.

Merki félagsins:

19. gr. Merki félagsins skal skráð hjá Einkaleyfisstofunni sem vöru- og gæðamerki.

20. gr. Engum öðrum en formlegum félögum og félaginu sjálfu er heimilt að nota merkið.

21. gr. Merkið skal vera á ljósum grunni og táknmynd þess með svörtum útlínum. Heimilt er þó að fylla stafi merkisins með bláum lit en þá sé grunnur hvítur. Óheimilt er að nota aðra liti.

22. gr. Félaginu er heimilt að nota merkið á alla útgáfu sína eða þá sem félagið stendur fyrir, hvort sem um er að ræða kennsluefni, verkefni, upplýsingaefni eða annað bréfsefni.

23. gr. Notkun merkisins á kennslubifreið, nafnspjald, bréfsefni o. s. frv. er ætlað að vera fagleg viðurkenning á starfsháttum viðkomandi ökukennara. Þegar merkið er notað utan á kennslubifreið eða í glugga hennar má nota það eitt sér en í öllum öðrum tilvikum skal standa við merkið „Félagi í Ökukennarafélagi Íslands”.

24. gr. Sá sem notar merkið felst á að fylgja í hvívetna lögum félagsins, lögmætum fundarsamþykktum sem varða starfsaðferðir við ökukennslu og úrskurði stjórnar hverju sinni.

25. gr. Stjórn félagsins er heimilt að setja sérstakar reglur um gerð og notkun merkisins sem barmmerkis.

Fræðslumiðstöð Ökukennarafélags Íslands ( F.Ö.Í. ):

26. gr. Hlutverk F.Ö.Í. er útgáfa og sala á kennsluefni fyrir ökukennslu.

27. gr. Stjórn F.Ö.Í. er skipuð fimm mönnum tilnefndum af stjórn Ö.Í.

Kjörnefnd

28. gr. Kjörnefnd er skipuð fimm félagsmönnum og einum til vara og mega kjörnir nefndarmenn ekki vera í stjórn Ö.Í. Fjórir nefndarmanna eru kjörnir til 2ja ára þannig að kosið er um tvo nefndarmenn árlega. Einn nefndarmanna skal skipaður af stjórn félagsins til eins árs og skal hann vera formaður nefndarinnar. Varamaður er kosinn til eins árs. Endurkjör er heimilt.

29. gr. Kjörnefnd skili stjórn skriflega tillögum sínum með tilnefndum nöfnum í allar þær stöður sem kjósa á um eigi síðar en tveimur vikum fyrir ársþing. Félagsmenn sem vilja gefa kost á sér til embætta í kjöri skulu tilkynna kjörnefnd framboð sitt eigi síðar en fjórum vikum fyrir ársþing.

Siðanefnd:

30. gr. Siðanefnd er skipuð fimm félagsmönnum og einum til vara og mega þeir ekki vera í stjórn Ö.Í. Þeir eru kjörnir til 2ja ára þannig að kosið er um þrjá nefndarmenn annað árið en tvo nefndarmenn ásamt varamanni hitt árið. Endurkjör er heimilt.

31. gr. Hlutverk siðanefndar er að taka fyrir og fjalla um mál einstakra félagsmanna eða ökuskóla sem uppvísir eru að broti á siðareglum félagsins. Jafnframt að taka fyrir kvartanir frá félagsmönnum, yfirvöldum, viðskiptavinum og/eða öðrum sem málum tengjast. Stjórn félagsins ákveður hvaða málum skuli vísað til Siðanefndar. Siðanefnd skili stjórn Ö.Í. álitsgerð fyrir hvert einstakt mál sem hún tekur fyrir. Stjórn félagsins tekur síðan ákvörðun um framhald fyrir hvert einstakt mál sem Siðanefnd skilar af sér.

32. gr. Lögum félagsins og meðfylgjandi viðaukum verður aðeins breytt á ársþingi og þarf 2/3 atkvæða til þess að samþykkja lagabreytingu. Lagabreytinga skal geta í boði til ársþings.

33. gr. Lög þessi tóku gildi á ársþingi 29. apríl 2000.

Breytingar voru samþykktar á 15. og 26. grein á ársþingi 2002.

Breytingar voru samþykktar á 15. og 31. til 34. grein ásamt viðauka 1 á ársþingi 2003.

Breytingar voru samþykktar á greinum 2, 5, 8, 10, 11, 13, 15, 16, 18, 33 og viðauka 3 auk nýrrar greinar nr. 9. á ársþingi 2014.

Breytingar voru samþykktar á greinum 1, 2 b),16, 18 og 27 á ársþingi 2019. Þá voru felldar brott greinar 28-31 (um samtök ökuskóla) og seinni greinar færðar upp sem því nemur.

Viðauki 1

Vinnureglur kjörnefndar

Tímalega fyrir ársþing komi kjörnefnd saman og geri sér grein fyrir um hvaða embætti eigi að kjósa.

Kanni nefndarmenn hug viðkomandi til endurkjörs. Gefi viðkomandi ekki kost á sér til endurkjörs eða einhverjar ástæður mæli gegn endurkjöri leiti nefndarmenn til þeirra félagsmanna sem þeir kjósa og leiti eftir samþykki þeirra til tilnefningar. Í þessu sambandi má benda á innihald 6. greinar laganna. Kjörnefnd tekur jafnframt við framboðum frá félagsmönnum, gerir að sinni tillögu eða kynnir framboðin sérstaklega á ársþingi.

Viðauki 2

Siðareglur ökukennara:

 1. Ökukennari skal starfa heiðarlega og af faglegri ábyrgð.
 2. Ökukennari rækir starf sitt án manngreinarálits og virðir réttindi hverrar manneskju.
 3. Ökukennari upplýsir nemanda um réttindi hans og skyldur, einnig um úrræði og námsmöguleika.
 4. Ökukennari gætir trúnaðar um einkamál ökunema eða fjölskyldu hans sem hann verður áskynja í starfi sínu.
 5. Ökukennari tekur ábyrgð á eigin hæfni sem starfsheiti hans felur í sér samkvæmt lögum.
 6. Ökukennari vinnur að því að skapa traust almennings á ökukennslu og faglegri hæfni ökukennara.
 7. Ökukennari gerir ekkert í starfi sem rýrir orðstír stéttarinnar.

Viðauki 3

Vinnureglur siðanefndar Ökukennarafélags Íslands.

Kærur og önnur ágreiningsmál skulu berast skrifstofu Ökukennarafélags Íslands og skulu einkennd með augljósum hætti. Formaður Ökukennarafélags Íslands vísar málum í þeirri röð sem þau berast til siðanefndar. Ef mál berast samtímis ræður dagsetning.

Hlutverk siðanefndar er að fjalla um ágreiningsmál sem henni berast frá formanni Ökukennarafélags Íslands um brot á siðareglum félagsins eins og þær eru á hverjum tíma og einnig önnur ágreiningsmál sem upp kunna að rísa. Siðanefnd skal halda gjörðabók.

Siðanefnd kannar hvort einhver nefndarmanna sé vanhæfur að fjalla um málið vegna tengsla við aðila. Úrskurður nefndarinnar er síðan birtur aðilum og eftir atvikum fylgir formaður ÖÍ málinu eftir.

Við upphaf málsmeðferðar kannar Siðanefnd hvort þeim kröfum, sem siðareglur gera til viðkomandi, hafi verið fullnægt. Sé svo ekki skal málinu vísað til stjórnar Ökukennarafélags Íslands með greinargerð þar um.

Siðanefnd getur boðið aðilum máls að skýra mál sitt með greinagerð.

Aðilum er heimilt að draga ágreinings mál sín til baka hvenær sem er áður en siðanefnd hefur lokið umfjöllun sinni.

Þegar um er að ræða brot á siðareglum skal viðkomandi grein tilgreind.

Siðanefnd ritar fullskipuð undir álit. Sérálit skulu birt með áliti meirihlutans.

Siðanefnd nafngreinir ekki í áliti sínu aðila máls sem eiga um sárt að binda ef hún telur að nafnbirting valdi þeim auknum sársauka.

Siðanefnd fer með gögn mála sem trúnaðarmál og fjallar ekki um einstök mál opinberlega.

Sé óafgreiddu máli fyrir siðanefnd skotið til dómstóls, vísar nefndin málinu samstundis frá, á hvaða stigi sem málið kann að vera innan nefndarinnar.